Að afloknum kosningum er rétt að fyrsta verk á þessu vettvangi sé að óska stjórnarflokkunum til hamingju með niðurstöðuna og endurnýjað umboð um leið og ég þakka þeim sem studdu Miðflokkinn. Skilaboð kjósenda voru að hluta til þau að nú væri ekki tími fyrir breytingar heldur vildi þreytt þjóð fá svolítinn hægagang og fyrirsjáanleika í kjölfar heimsfaraldurs og ekkert vinstra-stórslys, því hélt stjórnin velli.
Mikill vilji virðist vera hjá formönnum stjórnarflokkanna til áframhaldandi samstarfs. En á meðan skjól formannanna þriggja, hvers af öðrum, getur verið þeim þægilegt þá má það ekki kosta hvað sem er.
Umgengni ráðherra um ríkissjóð hefur verið með þeim hætti undanfarnar vikur að ljóst má vera að fáir vinir skattgreiðenda eru í þeim hópi. Sumir ráðherranna virtust vart komast fram úr rúminu án þess að dreifa fjármunum í þær áttir sem atkvæða var von, yfir þá sögu verður farið síðar. Aðstöðumunur ráðherra og annarra frambjóðenda hefur aldrei verið meiri en í nýafstöðnum kosningum.
Það blasir við að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur geta ekki, af mismunandi ástæðum, haldið áfram núverandi stjórnarsamstarfi með ráðherra Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í heilbrigðis- og umhverfisráðuneyti. Þar hljóta breytingar að verða á, sérstaklega í ljósi aðgerða umhverfisráðherra á lokametrum kjörtímabilsins.
Erfiðleikar við endurnýjun stjórnarsamstarfsins verða ekki bara málefnalegir, enda ríkisstjórnin upphaflega mynduð um stóla og áhrif, en ekki stefnu. Stóra vandamálið verður að sumir telja styrk sinn kalla á meiri áhrif en á því kjörtímabili sem nú er liðið. Þegar leysa þarf þá stöðu versnar hagur okkar skattgreiðenda hratt. Fyrsta mál á dagskrá verður líklega að fjölga ráðherrum þannig að allir geti fengið nægju sína.
Fremst í þeirri röð gæti orðið að stofna sérstakt loftslagsráðuneyti, sem Framsóknarflokkurinn hafði á stefnuskrá sinni fyrir kosningarnar, en fáir tóku eftir. Það verður athyglisvert að sjá hvort Sjálfstæðisflokkurinn kaupir skjólið því verði að hleypa slíku máli áfram. Ef stjórnarflokkarnir ná saman um áframhaldandi samstarf, þá væri æskilegt að það gerðist með öðrum hætti en að tugmilljarða reikningur verði sendur til landsmanna í formi óþarfs loftslagsráðuneytis, sem meira að segja umhverfisráðherra virðist efast um að vit sé í að setja á laggirnar.
Minnkum báknið, en stækkum það ekki. Förum vel með skattpeninga og verjum þeim fjármunum sem teknir eru af fjölskyldum og fyrirtækjum landsins til uppbyggingar innviða og reksturs grunnkerfa en ekki til gæluverkefna sem mögulega hafa það hlutverk helst að vera dúsa til þess stjórnarflokks sem minnst fékk í kosningunum.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins
Pistill í Morgunblaðinu þann 6. október, 2021