Á að teppaleggja láglendi landsins með vindmyllugörðum?

Bergþór Ólason tók til máls á Alþingi í dag undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir og beindi fyrirspurn sinni varðandi loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar og orkuframleiðslu til forsætisráðherra.

 "Iðulega þykir mér ekki fara saman hljóð og mynd þegar ríkisstjórnin setur fram sjónarmið sín og markmið, enda hefur stýring málaflokka sennilega aldrei verið jafn aðskilin og nú þegar tekið er tillit til þess hvaða flokkur fer með hvert ráðuneyti. Síðastliðinn laugardag kynnti hæstvirtur forsætisráðherra uppfærð loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar. Þau markmið sem nú falla niður dauð og ómerk eru þó ekki gömul.

Í nýju markmiðunum er í fyrsta lagi boðaður aukinn samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda. Í stað núverandi markmiðs um 40% samdrátt frá 1990–2030 verður markið nú sett á 55% samdrátt eða meira. Þá er ráðgert að efla aðgerðir, einkum í landnotkun, og loks skal lögð aukin áhersla á loftslagstengd þróunarsamvinnuverkefni. Allt hljómar það svo sem ágætlega en aðeins þremur dögum áður hafði flokksfélagi forsætisráðherra, hæstvirtur umhverfisráðherra, mælt fyrir frumvarpi um stofnun hálendisþjóðgarðs sem lokar fyrir frekari orkuvinnslu innan þjóðgarðsins, verði hann stofnaður. Frekari orkunýting sem möguleg er samkvæmt frumvarpsdrögunum er smáræði í stóru myndinni, enda má reikna með því að svokallaður biðflokkur rammaáætlunar falli allur niður, verði frumvarpið að lögum.

Því spyr ég hæstvirtan forsætisráðherra, í fyrsta lagi: Telur forsætisráðherra að þörf sé á frekari orkuframleiðslu innan lands næstu áratugi, jafnvel í þá veru sem spár Orkustofnunar gera ráð fyrir?

Í öðru lagi: Hvaðan áætlar forsætisráðherra að sú orka komi? Sér ráðherra jafnvel fyrir sér að teppaleggja láglendi landsins með vindmyllugörðum til að vinna á móti takmörkunum á hálendinu?

Í þriðja lagi: Telur ráðherra það samræmast markmiðum um kolefnishlutleysi að takmarka framleiðslu á grænni orku jafnmikið og stefnt er að miðað við fyrirliggjandi drög að lögum um hálendisþjóðgarð?"

Upptöku úr þingsal og svar ráðherra má sjá hér.