Mikilvæg fjárfesting á Grundartanga

Fyrir stuttu var greint frá því að Landsvirkjun og Norðurál hefðu undirritað nýjan raforkusamning sem felur í sér þriggja ára framlengingu á fyrri samningi. Þessi samningur kemur í kjölfar þess að Norðurál hefur greint frá fjárfestingu upp um 15 milljarða króna vegna nýs steypuskála á Grundartanga. Hér er um að ræða mikilvæga ákvörðun fyrir uppbygginguna á Grundartanga sem er eitt mikilvægasta atvinnusvæði á Vesturlandi. Nú er ljóst að áframhaldandi uppbygging verður á svæðinu sem ætti að geta stuðlað að styrkingu atvinnulífs hér í kjördæminu.

Ekki er síður mikilvægt að núgildandi raforkusamningur Landsvirkjunar og Norðuráls gildir til loka árs 2023. Með nýjum samningi er samningstíminn framlengdur um þrjú ár, eða út árið 2026, á föstu verði. Miðflokkurinn hefur ávallt stutt að Landsvirkjun hagi verðlagningu og samningsfyrirkomulagi þannig að orkan nýtist til uppbyggingar atvinnu hér á landi. Það virðist aftur vera orðin stefna Landsvirkjunar. Samningurinn núna virðist góður fyrir bæði fyrirtækin og tryggir nauðsynlegan fyrirsjáanleika í rekstri beggja.

Í nýjum steypuskála verða framleiddar álstangir en framleiðslan felur í sér aukna fjölbreytni í vöruframboði auk þess sem um frekari vinnslu á áli er að ræða, verðmætari og umhverfisvænni. Það er einstaklega ánægjulegt að þetta samkomulag skyldi nást og tryggja því góða fólki sem hjá Norðuráli starfar starfsöryggi og fyrirtækinu fyrirsjánleika. Í því ljósi er samningurinn afar mikilvægur og sérstakt fagnaðarefni fyrir okkur á Vesturlandi.

 Höfundur:

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist í Skessuhorni þann 28. júlí, 2021