Óundirbúin fyrirspurn

Bergþór Ólason tók þátt í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær, þriðjudaginn 2. júní.

Að þessu sinni beindi hann fyrirspurn sinni um nýtingu vindorku til ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra.

 

"Nú hefur Orkustofnun lagt til 43 virkjunarkosti til skoðunar í tengslum við vinnu verkefnisstjórnar um rammaáætlun. 34 þeirra fjalla um vindorku, þ.e. vindmyllugarða sem dreifast vítt og breitt um landið.

Ég beindi keimlíkri fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra í síðustu viku. Í svörum hans vakti athygli mína að ráðherrann sagði, með leyfi forseta:

„Það er mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að málefni vindorku heyri undir rammaáætlun, þ.e. allt sem er yfir 10 MW.“

Í skýrslu ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um nýjar aðferðir við orkuöflun, sem ráðherra lagði fram fyrir 149. löggjafarþing í nóvember 2018, segir m.a. í 4. kafla, 4.4, þar sem fjallað er um lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, svokallaða rammaáætlun, með leyfi forseta:

„Lögin taka til landsvæða þar sem er að finna orkulindir. Slíkar orkulindir gætu, aðrar en fallvatn og jarðhiti, verið kol og mór, samanber t.d. eldri ákvæði 1. gr. námulaga, …“

Og áfram segir í tilvitnaðri skýrslu:

„Andrúmsloftið fellur hins vegar undir þau verðmæti sem kölluð eru res communes og enginn telst eiga einkarétt á. Vindorka teldist vafalaust til slíkra verðmæta. Gildissvið laga um verndar- og orkunýtingaráætlun víkur hvorki að vind- né sjávarorku samkvæmt ákvæðum laganna …“

Og enn segir í skýrslu iðnaðarráðherra, með leyfi forseta:

„Rammaáætlun tæki þá einungis til landsvæða þar sem er að finna fallvatn og/eða jarðhitakerfi á afmörkuðu svæði en ekki vindorkuvera.“

Því spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra, að teknu tilliti til sterks texta í skýrslu iðnaðarráðherra frá því í nóvember 2018: Deilir ráðherrann og ráðuneyti hans þeirri skoðun sem fram kom hjá umhverfisráðherra í síðustu viku, þ.e. að nýting vindorku falli undir rammaáætlun, eða fór umhverfisráðherra rangt með afstöðu ráðherra og ráðuneytis iðnaðarmála?"

 

Fyrirspurnina má sjá hér.