Eldhúsdagsumræður

Forseti. Góðir landsmenn.

Nú við lok síðasta þings kjörtímabilsins er við hæfi að líta yfir farinn veg. Síðustu 15 mánuðir hafa verið tíðindalitlir í pólitíkinni, allt hefur snúist um faraldurinn. Sem betur fer höfum við Íslendingar náð góðum árangri í baráttunni við veiruna, þökk sé frábæru fagfólki og samstöðu landsmanna. En nú er tímabært að hefja aftur alvörustjórnmálaumræðu. Mörg stór mál hafa beðið óleyst árum saman. Til að geta tekið sem bestar ákvarðanir um framtíðina þurfum við að líta til þess hvað reynst hefur vel og hvað ekki.

Núverandi ríkisstjórn hefur ekki reynst vel. Hún hefur átt sína bestu daga í skjóli faraldursins. Því minna sem rætt var um stjórnmál, því betra fyrir ríkisstjórnina, stjórn sem mynduð var sem kerfisstjórn, hagsmunabandalag sem snerist um að skipta á milli sín ráðherrastólum fremur en pólitíska sýn.

Á meðan faraldurinn vofði yfir studdum við í Miðflokknum allar þær aðgerðir sem gátu verið til þess fallnar að bregðast við áhrifunum og lögðum ítrekað fram tillögur til að takast á við stöðuna. En af því að þær komu ekki úr kerfinu hafnaði kerfisstjórnin þeim, sem er líklega ekki skrýtið í ljósi þess að a.m.k. tveir stjórnarflokkanna hafa ítrekað hafnað eigin stefnu, jafnvel grunngildum sinna flokka. Kosningaloforðin fóru fyrir lítið í stjórnarmyndunarviðræðunum en Vinstri græn geta líklega vel við unað þótt þau hafi sleppt flestu því besta úr eigin stefnu og unnið ötullega að því versta. Eftir kjörtímabilið er heilbrigðiskerfið í sannkallaðri krísu, biðlistar lengjast, fólk er sent til útlanda í aðgerðir þótt það kosti þrefalt meira en að gera sams konar aðgerðir á sams konar stofnun á Íslandi. Nú á meira að segja að loka Domus Medica eftir 55 ára farsælt starf vegna þeirra aðstæðna sem ríkisstjórnin hefur búið starfseminni.

Hjúkrunarheimili eru fjársvelt og félagasamtök á borð við SÁÁ og Krabbameinsfélagið virðast ekki vera velkomin í hinu nýja, miðstýrða, marxíska heilbrigðiskerfi. Ótrúlegt klúður vegna krabbameinsskimana er afleiðing af þessu.

Á sviði forvarna og lýðheilsu virðist helsta framlag ríkisstjórnarinnar vera að lögleiða eiturlyf og setja þar heimsmet, eins og í svo mörgum rétttrúnaðarmálum ríkisstjórnarinnar. Þá skiptir álit sérfræðinga ekki lengur máli. Málið er hrein gjöf til þeirrar skipulögðu glæpagengja sem hafa verið að leggja undir sig fíkniefnamarkaðinn á Íslandi og auka framboð sterkra vímuefna. Eins og greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur ítrekað bent á misnota glæpagengin líka hælisleitendakerfið og velferðarkerfið á Íslandi. En á því sviði mætir ríkisstjórnin líka með lagabreytingar sem auðvelda starf glæpahópanna. Í stað þess að fara sömu leið og jafnaðarmenn í Danmörku og önnur stjórnvöld á Norðurlöndum og reyna að beina flóttamönnum hina öruggu, löglegu leið og taka svo vel á móti þeim sem boðið er til landsins, fer ríkisstjórn Íslands í þveröfuga átt.

Sú pólitík sem núverandi ríkisstjórn þó stundar byggist á umbúðum en ekki innihaldi. Þetta er sérstaklega áberandi í umhverfismálum. Umhverfisvernd er gríðarlega mikilvæg en aðferðir íslenskra stjórnvalda eru ekki til þess fallnar að skila árangri, þvert á móti. Áformin gera ráð fyrir hærri sköttum og gjöldum sem bitnar fyrst og fremst á þeim tekjulægri, minni neyslu og þar með minni lífsgæðum og minni framleiðslu á Íslandi. Þetta er fráleit nálgun í ljósi þess að við þurfum að auka verðmætasköpun á Íslandi. Því meira sem framleitt er hér með umhverfisvænum orkugjöfum, því betra.

Áform um hálendisþjóðgarð eru til þess fallin að loka stórum hluta landsins að verulegu leyti fyrir landsmönnum og taka það undan lýðræðislegri stjórn. Málið væri þegar afgreitt ef Miðflokkurinn hefði ekki gripið inn í, eins og í svo mörgum óheillamálum ríkisstjórnarinnar.

Á kjörtímabilinu virðist samgöngumálum að mestu hafa verið stjórnað af borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík. „Reykjavíkurflugvöllur á að fara“, segja þau, enda liður í borgarlínuverkefninu sem ríkisstjórnin ákvað af óskiljanlegum ástæðum að fjármagna fyrir Samfylkinguna í Reykjavík, verkefni sem er beinlínis ætlað að þrengja að annarri umferð. Ríkisstjórnin taldi að í staðinn yrði ríkinu leyft að fjármagna nauðsynlegar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu, en eftir undirritun samningsins útskýrði formaður skipulagsráðs í Reykjavík að það yrði bara ekki þannig.

Mikilvægustu hlutverk ríkisins hafa verið vanrækt. Stór hluti drengja í grunnskólum getur ekki lesið sér til gagns og Ísland er á niðurleið í PISA-könnunum sem mæla námsárangur milli landa.

Eldri borgarar hafa verið vanræktir árum saman. Ósanngjarnar og óhagkvæmar skerðingar, sem lífeyrisþegar og þeir sem reiða sig á greiðslur almannatrygginga búa við, hafa ekki verið leiðréttar nú mörgum árum eftir að stjórnvöld gáfu fyrirheit um það. Það er ekki bara ósanngjarnt, það skapar líka neikvæða hvata sem draga úr verðmætasköpun og sparnaði.

Á næsta kjörtímabili þarf Alþingi að vera afdráttarlaust um að við munum verja fullveldið. Afgreiðsla þriðja orkupakkans var stór viðvörun og nú er sá fjórði á leiðinni. Við þurfum að fara yfir með hvaða hætti við nálgumst og nýtum EES-samninginn og Schengen-samstarfið nú þegar jafnvel Evrópusambandslönd eru farin að taka að sér meiri sjálfsákvörðunarrétt varðandi stjórn sinna landamæra og innri mála. Nú lætur Evrópusambandið sér ekki nægja að mæla fyrir um hvað fólk megi borða morgunmat heldur ætlar það að fara að stýra sjónvarpsdagskránni og jafnvel umræðu á samfélagsmiðlum. Alþingi verður að hafna nýju ritskoðunarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar og ESB.

Sífellt nýjar kvaðir eru lagðar á lítil íslensk fyrirtæki þótt þær séu sniðnar að alþjóðlegum stórfyrirtækjum. Þetta kostar mikla vinnu og fjárútlát sem renna þá ekki í að hækka laun og ráða fólk eða auka verðmætasköpun. Þetta skekkir samkeppnisstöðu, dregur úr verðmætasköpun á Íslandi, bitnar á neytendum og minnkar tekjur ríkissjóðs.

Báknið hefur aldrei verið stærra og það er fjármagnað með skattgreiðslum almennings. Eftir höfðinu dansa limirnir og forsætisráðuneytið hefur vaxið hraðar á þessu kjörtímabili en nokkru sinni fyrr. Skattar á Íslandi eru með þeim hæstu í heimi. Auk þess hefur ríkisstjórnin hækkað hin ýmsu gjöld og bætt nýjum við. Við þurfum hvetjandi skattkerfi, kerfi sem refsar ekki ungu, vinnandi fólki sem er að koma sér upp húsnæði, eða frumkvöðlum og fyrirtækjum sem skapa verðmæti fyrir samfélagið.

Byggðamál hafa að mestu leyti gleymst á kjörtímabilinu. Í því efni kynntum við stærstu og róttækustu áætlun sem sést hefur í íslenskum stjórnmálum um áratugaskeið. Það sama má segja um landbúnað. Með róttækri heildarstefnu Miðflokksins getur greinin sótt fram á öllum vígstöðvum. Eftir 15 mánuði án stjórnmála þurfum við að taka afstöðu til þess hvernig við byggjum upp samfélagið til framtíðar.

Í því efni er Miðflokkurinn með lausnirnar.

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, 3. þingmaður Norðausturkjördæmis og formaður Miðflokksins

Eldhúsdagsumræður 7. júní, 2021

Sigmundur Davíð talaði fyrir Miðflokkinn í 1. umferð