Rangfærslur borgarstjóra um flugvallarmál

Nýlega var Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í útvarpsviðtali í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni og voru orð hans þar oftar en ekki uppfull af alls kyns rangfærslum, hvort sem það var með vilja gert eða af því að hann veit ekki betur. Hann m.a. fullyrti að fyrrverandi flugmálastjóri, Þorgeir Pálsson, hefði kallað eftir nýjum varaflugvelli því Reykjavíkurflugvöllur væri of lítill. Þetta er rangt því Þorgeir Pálsson sagði í samtali við mbl.is hinn 9. nóvember 2019 að borgarstjóri drægi ekki upp rétta mynd af skýrslu um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar. Hann sagði jafnframt að borgarstjóri léti ógert að nefna margvíslega fyrirvara sem gerðir væru við Hvassahraun sem flugvallarstæði sem kæmi í veg fyrir að hægt væri að taka ákvörðun um byggingu flugvallar á þeim stað.

Tilefni þessara ummæla var viðtal við borgarstjóra í Morgunblaðinu í byrjun nóvember sama ár. Borgarstjóri sagði jafnframt í viðtalinu að hinar nýju 737 MAX-flugvélar Icelandair gætu alls ekki notað Reykjavíkurflugvöll. Þessi fullyrðing hans er alröng. Þær geta það og gera, og reyndar stærsti hluti flota félagsins, sem þá taldi yfir 30 flugvélar, getur einmitt notað Reykjavíkurflugvöll sem varaflugvöll og gerir. Fimm farþegaþotur komast fyrir á Egilsstaðaflugvelli og Akureyrarflugvelli, þ.e. á hvorum fyrir sig, en mun fleiri komast hins vegar fyrir á Reykjavíkurflugvelli. Þó ekki eins margar í dag og áður eftir að hindranir voru settar á malbik fyrrverandi brautar 06/24 sem kölluð var neyðarbrautin eftir að henni var lokað þökk sé Degi B. Eggertssyni. Á neyðarbrautinni hefðu komist fyrir nokkrar farþegaþotur líka ef á þyrfti að halda.

Vert er í því sambandi að benda á að flugvellir geta lokast ekki eingöngu vegna veðurs eins og dæmin sýna. Ingvar Tryggvason, formaður öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna, hefur ítrekað bent á þetta og eins það að það sé alvörumál að setja fram rangfærslur og afvegaleiða umræðuna eins og borgarstjóri hefur gert. Í viðtalinu sem tekið var við borgarstjóra á Bylgjunni, sem fyrr er vitnað í, talaði hann í hringi um sjúkraflugið eins og t.d. að lendingarstaður skipti minna máli en aðrir þættir og setti svo fram óskiljanlegar fullyrðingar um að flutningstími væri langur. Hver einasta mínúta skiptir máli þegar verið er að flytja alvarlega veika eða slasaða einstaklinga á milli landshluta. Steininn tók þó úr þegar borgarstjóri fullyrti að það tæki marga klukkutíma að kalla út sjúkraflugvél. Slíkt er rakalaust bull eins og framkvæmdastjóri Flugfélagsins Mýflugs útskýrði í sama þætti næsta dag. Borgarstjóri hóf því næst að tala um umbúnað innanlandsflugs og að hann yrði betri annars staðar.

Dagur B. Eggertsson hefur verið manna duglegastur sjálfur að þrengja skipulega að flugvellinum svo hann á stærstan þátt í því að „umbúnaður“ innanlandsflugs skuli ekki vera betri en hann er í dag. Seinna í viðtalinu deleraði borgarstjóri um að þyrlur myndu leysa sjúkraflug af. Því er til að svara að þó að þær séu vissulega frábærar þar sem flugvélum verður ekki komið við henta þær ekki eins í sjúkraflutninga á milli landshluta þar sem tíminn skiptir máli. Má nefna hversu hægfleygari þær eru og eins hitt að þær eru ekki búnar jafnþrýstibúnaði eins og flugvélarnar, líkt og fagfólk í fluginu hefur ítrekað bent á. Ef flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni gætu þyrlur Landhelgisgæslunnar ekki lent við spítala eða nálægt honum þegar lágskýjað væri eða slæmt skyggni vegna þess að þá væri ekki lengur til staðar til þess nauðsynlegur blindflugsbúnaður flugvallarins. Í slíkum veðurskilyrðum þyrftu þær að lenda í Keflavík eða á einhverjum öðrum flugvöllum. Er ekki mál að rangfærslum um flugvöllinn í Vatnsmýrinni linni hjá Degi B. Eggertssyni borgarstjóra?

 

Höfundur:  Vigdís Hauksdóttir, lögfræðingur og borgarfulltrúi Miðflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 7. desember, 2020