Sæbraut þrengd um helming í á þriðja ár

Í vikunni bárust fréttir af því að verkefnastofa borgarlínu hafi gefið út að fyrsti áfangi línunnar sem ekki borgar sig frestist um eitt ár, en þar sem ákveðið hafi verið að skipta fyrsta áfanga upp í tvo hluta og að hinn seinni frestist um tvö ár, þá er frestun þessa fyrsta áfanga auðvitað í raun orðin tvö ár nú þegar.

Það er ekki alltaf tilefni til að fagna frestun framkvæmda, en nú er það raunin. Gallinn er sá að best væri að fresta þessari brjálæðishugmynd Samfylkingarinnar í Reykjavík og nokkurra fyrrverandi sveitarstjóra Sjálfstæðisflokksins út í hið óendanlega og leita þess í stað leiða til að finna raunhæfa lausn til að bæta almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Þær lausnir eru til.

Matsáætlun fyrir vegstokk á Sæbraut var birt á vef Vegagerðarinnar síðastliðinn þriðjudag. Áætlunin er unnin af Verkís fyrir Vegagerðina og Reykjavíkurborg. Af matsáætluninni má glögglega sjá hversu flókið verkefnið er. Virðingarvert er að skýrsluhöfundar fara ekki í grafgötur með hver áhrif á umferðarflæði verða á framkvæmdatíma.

Eins og segir í skýrslunni: „Búast má við töfum á umferð þar sem dregið verður úr umferðarrýmd götunnar á framkvæmdatíma“ og í framhaldinu er birt tafla undir heitinu „tillaga að áfangaskiptingu framkvæmda og áætlaður verktími“. í henni kemur fram að áætlað er að Sæbrautin verði 1+1-vegur í á þriðja ár, eða frá hausti 2024 fram í byrjun árs 2027 og það er ef öll plön ganga eftir, sem gerist næstum því aldrei í jafn flókinni framkvæmd og hér um ræðir.

Ein spurning sem ekki er svarað í skýrslunni (eflaust er ætlunin að gera það síðar, þegar of seint er að skipta um kúrs) er hvert umferðin sem hrakin verður af Sæbrautinni á framkvæmdatímanum færir sig. Hluti hennar fer eflaust inn í nærliggjandi íbúðahverfi og hluti á Miklubrautina, hvar menn ætla að dunda sér, til langrar framtíðar, við að setja þann umferðarþunga veg í stokk, með tilheyrandi töfum á umferð þar sem „dregið verður úr umferðarrýmd“.

Við stöndum nú frammi fyrir einstöku tækifæri. Við getum séð nákvæmlega hver áhrifin af framkvæmdunum verða. Í haust er hægt að „draga úr umferðarrýmd“ á þeim stöðum þar sem slíkt er áætlað, annaðhvort vegna framkvæmda eða varanlega í tengslum við lagningu borgarlínu. Hægt er með keilum að loka annarri akrein Sæbrautar í hvora átt og annarri akrein Suðurlandsbrautar í hvora átt, til dæmis í september og október og svo aftur á vetrarþjónustutímabili, í febrúar og mars. Þá sjáum við glöggt hvernig ástandið verður á framkvæmdatíma annars vegar og hins vegar til langrar framtíðar. Ég þori ekki að nefna þrengingar við fyrirhugaðan Miklubrautarstokk, þá missa allir áhugann á tilrauninni.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 30. júní, 2022.