Samgöngubætur

Samgöngubætur um allt land, ekki Borgarlínu

Þörfin fyrir samgöngubætur er knýjandi bæði á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu.  Þrátt fyrir mikla efnahagslega niðursveiflu nýtur íslenska ríkið nú betri kjara en áður. Það er afleiðing þeirra róttæku efnahagsaðgerða sem ráðist var í á árunum 2013-16.  Þessa stöðu á að nýta til að byggja upp innviði landsins, ekki hvað síst í samgöngum. En þá skiptir öllu máli að forgangsraða rétt.  Ráðast í hagkvæmar framkvæmdir þar sem þörfin er mest.  Lykilatriði í þeim útreikningum er mikilvægið sem felst í því að tengja allt landið og veita íbúum Íslands alls þá þjónustu sem þeir eiga rétt á.

Raunin hefur hins vegar verið sú að stjórnvöld hafa gefið fyrirheit um einstaklega óhagkvæmar fjárfestingar.  Samkomulag um að veita 50 milljarða króna styrk til að koma á framkvæmdum við svokallaða Borgarlínu er skýrasta dæmið.  Ríkisstjórnin samþykkti að selja verðmætar eignir (Keldnalandið og/eða Íslandsbanka) til að fjármagna upphaf Borgarlínu án þess að framkvæmdakostnaður liggi fyrir og hvað þá rekstrarkostnaður sem ríkið getur setið uppi með til framtíðar.

Ríkisstjórnin hefur hvað eftir annað látið plata sig til að gera samninga sem leiða til óhagkvæmra fjárfestinga í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu og miða að því að þvinga flugvöllinn burt úr Reykjavík.

Fyrir áratug ákvað þáverandi ríkisstjórn að veita milljarði í stuðning við Strætó en draga fyrir vikið úr samgöngubótum á höfuðborgarsvæðinu.  Markmiðið var að auka notkun Strætó.  Árangurinn varð enginn.  Engu að síður er leikurinn endurtekinn nú og bætt í með því að halda áfram með verkefni sem hefur ekki virkað í 10 ár og bæta við tvöföldu strætisvagnakerfi sem mun þrengja að annarri umferð á höfuðborgarsvæðinu og miðar að því að Reykjavíkurflugvelli verði lokað.

Nú er rétti tíminn fyrir átak í samgöngumálum um allt land en það er aldrei rétti tíminn fyrir glórulausar ákvarðanir eins og þær sem nú er unnið að.