Alþingi hefur líklega aldrei eða a.m.k. ekki oft setið jafn lengi fram að forsetakosningum og nú. Þetta þing hefur verið óvenjulegt vegna kórónuveirufaraldursins sem herjað hefur á heimsbyggðina og setti mark sitt á þingstörfin líkt og allt samfélagið. Undanfarið hefur á Alþingi farið fram umræða um samgöngumál þar sem í raun fjögur mál eru undir. Samgönguáætlanir til 5 og 15 ára, stofnun opinbers hlutafélags vegna samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu og frumvarp um samvinnuverkefni eða svokallað „public private partnership“.
Einhverjir hafa pirrað sig á því að við í Miðflokknum höfum rætt þessi mál í þaula en það höfum við ekki gert að gamni okkar heldur vegna þess að við teljum það nauðsynlegt og beinlínis skyldu okkar gagnvart skattgreiðendum þessa lands. Það er alltaf hægt að deila um forgangsröðun framkvæmda í samgöngumálum enda um takmarkaða fjármuni að ræða sem veittir eru til þess málaflokks. Fram kemur í gögnum með samgönguáætlununum að framkvæmdaþörfin í vegakerfinu sé metin á fjögur hundruð milljarða króna og þá er ekki talinn með sá kostnaður sem verður til á tíma áætlananna.
Á sama tíma og þetta liggur fyrir ætlar meirihluti Alþingis að skuldbinda ríkissjóð til að greiða a.m.k. eitt hundrað og fimm milljarða króna í verkefni tengd sk. samgöngusáttmála.
Það sem við höfum gagnrýnt sérstaklega er að ekki liggja fyrir upplýsingar um meðferð ýmissa mála tengdra sáttmálanum og opinbera hlutafélaginu.
Meðal þess sem ekki hefur legið fyrir er endanlegur kostnaður, hvernig ábyrgð á framúrkeyrslu verður dreift, að sveitarfélögin tryggi skipulagslegan framgang annarra verkefna, hvernig skipting eigna verður eftir framkvæmdir, hvernig rekstrakostnaður skiptist o.fl. Það er algerlega ótrúlegt að ríkisstjórnarflokkarnir skuli telja það eðlilegt að fara í slíkan leiðangur með svo margt óljóst. það er í raun óábyrgt að ætla að skilja það eftir sem seinni tíma mál að taka á svo stórum málum.
Það er óábyrgt því þegar illa fer, ég segi þegar illa fer því þetta verkefni mun fara langt fram úr áætlunum, verður reikningurinn sendur skattgreiðendum. Þeir fjármunir sem þá þarf að setja í þetta óljósa verkefni verða ekki nýttir í annað s.s. aðrar samgönguframkvæmdir, byggingu hjúkrunarheimila, eflingu löggæslu eða annað sem útgjöld ríkissjóðs fara í.
Þessa forgangsröðun þurfa þingmenn stjórnarflokkanna að skýra og taka ábyrgð á. Þegar þetta er ritað standa yfir samningar um þinglok. Í þeim viðræðum gerum við Miðflokksmenn kröfu um að hlutverk og skyldur ríkissjóð verði skýrðar áður en málið verður endanlega afgreitt. Alþingi getur ekki afgreitt frá sér málið án þess að skyldur ríkissjóðs séu skýrðar, slíkt væri ábyrgðarlaust.
Höfundur: Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Suðvesturkjördæmis og varaformaður Miðflokksins
Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 25. júní, 2020