Síðasta mílan

Nýtilkominn áhugi ráðherra í ríkisstjórninni á stöðu fjarskiptamála á Íslandi hefur aðallega snúið að sölu Símans á dótturfélagi sínu, Mílu, til erlends sjóðstýringarfyrirtækis – eðlilega, enda um mikilvæga fjarskiptainnviði að ræða og mikið í húfi fyrir Íslendinga ef ekki er vandað til verks.

Áhugi ráðherranna hefði þó mátt sjást fyrr enda hefur legið fyrir í nokkurn tíma að salan væri yfirvofandi. Hins vegar vekur athygli að þetta mál, salan á Mílu, var rifin inn til umræðu í Þjóðaröryggisráði á dögunum enda tilefni til. Það sem er athyglisvert hins vegar er að fyrir stuttu, á liðnu þingi, taldi Þjóðaröryggisráð ekki ástæðu til að taka sérstaka afstöðu til 87. greinar frumvarps til nýrra fjarskiptalaga sem kvað á um mögulegar takmarkanir á viðskiptum við framleiðendur fjarskiptabúnaðar, oft kallað „Huawai-ákvæðið“. Það virðist því vera tilviljanakennt hvaða angar fjarskiptamála rata inn á borð Þjóðaröryggisráðs og stýrist frekar af óðagoti en styrkri stefnu.

Þetta frumvarp til fjarskiptalaga sem varð ekki að lögum, þótt um væri að ræða stjórnarfrumvarp sem var lagt fram af samgönguráðherra og búið væri að leiða öll helstu ágreiningsefni í jörð á þinginu, hafði að geyma ýmsar breytingar til hins betra fyrir íslensk heimili. Heimilt hefði verið að opna á meira reiki milli farsímakerfa á þjóðvegum sem hefði gjörbylt gæðum farsímaþjónustu á vegum landsins. En aftur virtist áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á fjarskiptamálum ráða för – fróðlegt verður að sjá hvernig farið verður með þetta mál á nýju þingi.

Það er fleira sem ríkisstjórnin hefur horft framhjá þegar kemur að fjarskiptamálum. Þar má helst nefna mikilvægi þess að koma ljósleiðara í þéttbýliskjarna á landsbyggðinni. Lagningu ljósleiðara í dreifbýli lýkur senn en þeir þéttbýliskjarnar á landsbyggðinni þar sem ljósleiðari verður ekki lagður á markaðslegum forsendum hafa margir verið ótengdir og verða það að óbreyttu áfram. Í þeim efnum þvælast misvísandi skilaboð stjórnvalda fyrir. Hlutverk stjórnvalda er að tryggja grunnþjónustu um allt land og er þessi staða óboðleg.

Það er þekkt að síðustu prósentin, síðustu húsin, síðustu metrarnir, síðasta mílan eru dýrasti hluti uppbyggingar á fjarskiptainnviðum. Það er ótækt að stjórnvöld séu í þeim efnum beinlínis til trafala með því annars vegar að hindra skynsamlegt samstarf og samvinnu og hins vegar með því að tefja innleiðingu á nýju regluverki fjarskipta. Nægar eru áskoranirnar samt. Það er ekki annað hægt en að vona að skyndilegur og nýtilkominn áhugi ríkisstjórnarinnar á fjarskiptamálum leiði til frekari uppbyggingar, öllum til heilla.

 

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.

bergthorola@althingi.is

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 25. október, 2021