Sigmundur Davíð spyr um markmið ríkisstjórnarinnar í baráttunni við Covid-19

Þingfundur í dag byrjaði á óundirbúnum fyrirspurnum þar sem Sigmundur Davíð spurði forsætisráðherra hvort að ríkisstjórnin hafi sett sér markmið í baráttunni við Covid-19, þá með hvaða hætti tekið verður á þessu ástandi.

Eftirfarandi er fyrirspurn Sigmunds:

"Forseti. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort ríkisstjórnin hafi sett sér einhver markmið í baráttunni við heimsfaraldurinn. Þá á ég ekki við augljósa svarið um að markmiðið sé að sjálfsögðu að allt fari sem best, bæði hvað varðar heilbrigðisþáttinn og efnahagsmálin, heldur hvort ríkisstjórnin hafi sett sér markmið um það með hvaða hætti tekið verður á þessu ástandi, til að mynda og kannski sérstaklega varðandi veiruna sjálfa. Í upphafi faraldursins var kynnt það markmið að reyna að fletja kúrfuna, eins og það var kallað, þ.e. að smit yrðu ekki fleiri en svo að heilbrigðiskerfið réði við það. Er þetta enn markmiðið eða er markmiðið að koma alveg í veg fyrir smit í landinu? Á meðan slíkt liggur ekki fyrir, eða eitthvert annað markmið, er mjög erfitt fyrir stjórnvöld, svo ekki sé minnst á almenning í landinu og fyrirtækin, að gera ráðstafanir, gera áætlanir, gera plön. Þegar menn vita ekki að hverju er stefnt er hver einasti dagur óvissudagur og hver einasta tilkynning frá ríkisstjórninni til þess fallin að viðhalda óvissunni. Að sjálfsögðu verður alltaf óvissa í svona ástandi, ég geri mér grein fyrir því. En hefur ríkisstjórnin sett saman einhverjar sviðsmyndir þannig að hún viti og geti sagt almenningi að þróist hlutir með tilteknum hætti þá gerist ákveðnir hlutir, þá verði viðbrögðin með ákveðnum hætti? Ef slíkt lægi fyrir myndi það hjálpa til að mynda fyrirtækjunum í landinu að taka stórar ákvarðanir um hvernig þau haga sínum rekstri, en það myndi ekki síður hjálpa stjórnvöldum, skyldi maður ætla, að aðstoða almenning og fyrirtæki til samræmis við ástandið og þróun þess."

 

Smellið hér til að sjá vídeó upptöku af fyrirspurn Sigmunds Davíðs.