Sláandi skýrsla um skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins, tók til máls í störfum þingsins í dag og ræddi um sláandi skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi.

Forseti. Við upphaf þessa kjörtímabils, í október 2017, birtist sláandi skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi. Í henni fólst annars vegar alvarleg viðvörun þar sem bent var á að umfang slíkrar starfsemi hefði aukist til mikilla muna hér á landi og við ættum erfitt með að sporna við þeirri þróun. Hins vegar birtist í skýrslunni hálfgert neyðaróp lögreglunnar þar sem hún kallar eftir úrræðum til að takast á við þennan breytta veruleika og þennan vaxandi vanda, kallar eftir mannskap, tólum og tækjum, tækni, þekkingu, heimildum og fjárveitingum.
Hver hafa viðbrögð ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans hér á þingi verið? Nánast engin. Og aftur birtist skýrsla um umfang skipulagðrar glæpastarfsemi 2019, á miðju kjörtímabili. Það dugði ekki til að vekja þau viðbrögð sem nauðsynleg eru og verða við þeim ábendingum sem lögreglan hefur ítrekað sett fram. Allar tillögur okkar um auknar fjárveitingar til lögreglu til að gera henni betur kleift að takast á við þennan vanda hafa verið felldar af ríkisstjórninni. Þess í stað leggur hún fram tvö ný þingmál sem ætlunin er að klára nú á þessu þingi, að því er virðist, sem eru til þess fallin að auðvelda þessum glæpahópum starfsemina hér. Það er annars vegar frumvarp um lögleiðingu fíkniefna að verulegu leyti og hins vegar frumvarp sem mun breyta hælisleitendakerfinu hér, nokkuð sem ítrekað er vikið að í þessum skýrslum, og gera okkur erfiðara að koma í veg fyrir misnotkun þess, á sama tíma og önnur Norðurlönd eru að fara í þveröfuga átt einmitt til að hindra misnotkun hælisleitendakerfisins sem bitnar verst á þeim sem þurfa mest á aðstoðinni að halda.

Smellið hér til að sjá upptöku af ræðu Sigmundar Davíðs í þingsal