Stjórnlaus borgarlína

Stjórnlaus borgarlína

 
Í fjár­mála­áætl­un fyr­ir árin 2025-2029, sem nú er rædd á Alþingi, kem­ur fram að viðræður standi yfir um end­ur­skoðun sam­göngusátt­mála höfuðborg­ar­svæðis­ins. Í þeim er gert ráð fyr­ir að fram­lag úr rík­is­sjóði auk­ist um fjóra millj­arða á ári, næstu fimm…
 

Í fjár­mála­áætl­un fyr­ir árin 2025-2029, sem nú er rædd á Alþingi, kem­ur fram að viðræður standi yfir um end­ur­skoðun sam­göngusátt­mála höfuðborg­ar­svæðis­ins.

Í þeim er gert ráð fyr­ir að fram­lag úr rík­is­sjóði auk­ist um fjóra millj­arða á ári, næstu fimm árin, um­fram það sem áður var áætlað, sam­tals 20 millj­arða.

Þessu til viðbót­ar er gert ráð fyr­ir að rík­is­sjóður „láni“ Betri sam­göng­um ohf. aðra 20 millj­arða sem eng­in áform liggja fyr­ir um hvernig verða end­ur­greidd­ir í rík­is­sjóð, enda er að lík­ind­um ekki reiknað með end­ur­greiðslu.

Þessi 40 millj­arða inn­spýt­ing, á næstu fimm árum, kem­ur sem fyrr seg­ir til viðbót­ar við þegar áætlaðar fjár­veit­ing­ar til sam­göngusátt­mál­ans og til viðbót­ar við af­hend­ingu Keldna­lands­ins, sem hef­ur gert Betri sam­göng­ur ehf. að helsta fast­eignaþró­un­ar­fé­lagi lands­ins.

Þessu til viðbót­ar upp­lýsti fjár­málaráðherra í gær að áform væru um að rík­is­sjóður kæmi að rekstri borg­ar­lín­unn­ar, sem var sagt úti­lokað þegar lög um stofn­un Betri sam­gangna ohf. fóru í gegn­um þingið.

Það þarf ekki að koma á óvart að starf­andi formaður VG segi nú for­send­ur til að „koma borg­ar­lín­unni á flug“.

Til upp­rifj­un­ar sagði Jón Gunn­ars­son, sem óhætt er að kalla tals­mann Sjálf­stæðis­flokks­ins í sam­göngu­mál­um á þeim tíma, í umræðu um stofn­un hins op­in­bera hluta­fé­lags: „Erum við ekki sam­mála um að það sé al­gjör­lega skil­yrt að ríkið komi ekki ná­lægt rekstr­ar­kostnaðinum sem hv. þing­manni var tíðrætt um? Það er sveit­ar­fé­lag­anna að sjá um hann.“ Svo mörg voru þau orð.

Nú er þetta allt breytt. Ekki bara skal rík­is­sjóður borga ótelj­andi tugi millj­arða í fram­kvæmda­kostnað um­fram það sem upp­haf­lega var áætlað, held­ur skal rík­is­sjóður leggja til rekst­urs borg­ar­lín­unn­ar sem var af­tekið með öllu að yrði raun­in þegar áformin voru plötuð í gegn­um þingið.

Eft­ir all­an þenn­an tíma hef­ur ekki enn verið lögð fram rekstr­aráætl­un fyr­ir borg­ar­lín­una. Ekk­ert ból­ar á upp­færðu kostnaðarmati vegna fram­kvæmda­hluta sátt­mál­ans, sem átti fyrst að liggja fyr­ir síðasta sum­ar. Heild­ar­út­gjöld rík­is­sjóðs vegna sam­göngusátt­mál­ans og rekst­urs borg­ar­lín­unn­ar eru þing­heimi dul­in sem lott­ó­töl­ur næsta laug­ar­dags. Samt er ætl­ast til þess að þing­menn samþykki fjár­mála­áætl­un­ina.

Eins og staðan er núna eru hvorki for­send­ur til að Alþingi af­greiði fjár­mála­áætl­un óbreytta hvað sam­göngusátt­mála höfuðborg­ar­svæðis­ins varðar, né held­ur að Alþingi samþykki sam­göngu­áætlun sem hef­ur legið í salti síðan í nóv­em­ber.

For­sæt­is­ráðherra, fjár­málaráðherra og innviðaráðherra verða að sýna á spil­in hvað end­ur­mat sam­göngusátt­mála höfuðborg­ar­svæðis­ins varðar. Að öðrum kosti er það bein­lín­is skylda þing­manna að stíga á brems­una þar til birt­ir til.