Stóreflum íslenskan landbúnað

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, mælti fyrir tillögu til þingsályktunar um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar, sem er eitt af forgangsmálum Miðflokksins á þessu þingi. 

Hér er um að ræða eina stærstu aðgerðaráætlun varðandi íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu í seinni tíð. 

Með þingsályktunartillögunni er lagt til að forsætisráðherra verði falið að hrinda í framkvæmd 24 aðgerðum á sviði landbúnaðar í samráði við bændur. Aðgerðirnar miða að því að styrkja rekstrarafkomu matvælaframleiðenda til að verja greinina og þau fjölþættu verðmæti sem í henni felast fyrir samfélagið. 

Miðflokkurinn leggur til eftirfarandi aðgerðir:  

 1.      Stuðningur við landbúnað verði stóraukinn og rekstrarafkoma matvælaframleiðenda styrkt.  Fjárframlög til greinarinnar verði aukin og stefnt að lækkun rekstrarkostnaðar og betri lánskjörum.

2.      Gerð verði landsáætlun um aukna sjálfbærni íslensks landbúnaðar, m.a. með tilliti til orkuskipta og áburðarnotkunar.

3.      Hvatt verði til aukinnar lífrænnar framleiðslu, m.a. með þróunarstyrkjum.

4.      Auknu fé verði varið til nýsköpunar og þróunar í hefðbundnum búgreinum og vinnslu með tilliti til þess að í mörgum tilvikum skili ávinningurinn sér ekki fyrr en að mörgum árum liðnum. Stutt verði við hringrásarhagkerfið í því samhengi og fullnýtingu afurða.

5.      Gerð verði áætlun um hvernig stórefla megi nám tengt landbúnaði á öllum námsstigum.
6.      Styrktir verði viðurkenndir aðilar sem vinna að markaðsmálum, nýsköpun og þróun, t.d. viðskiptahraðallinn Til sjávar og sveitaLandbúnaðarklasinn o.fl.

7.      Tollasamningi landbúnaðarráðherra frá 17. september 2015 við Evrópusambandið verði sagt upp nú þegar eða óskað endurskoðunar á honum, m.a. með tilliti til útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

8.      Innflutningur á ófrosnu kjöti, eggjum og ógerilsneyddum matvælum verði stöðvaður vegna sérstöðu landsins og mikilvægis matvæla og fæðuöryggis.

9.      Eftirlitskerfi með matvælaframleiðslu verði einfaldað og kostnaði við eftirlitið létt af greininni.

10.      Stutt verði við frekari þróun og aukna markaðshlutdeild innlendrar kjarnfóðurframleiðslu og kornræktar sem nýtir innlenda orkugjafa og skapar störf.

11.      Gerð verði áætlun um frekari nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar til innlendrar matvælaframleiðslu á sambærilegum kjörum og stóriðjan nýtur. Það taki til allra stiga framleiðslunnar, m.a. ræktunar, húsdýrahalds, kjarnfóðurframleiðslu og vinnslu afurða í afurðastöðvum.

12.      Veittir verði styrkir til rannsókna og framleiðslu á innlendu eldsneyti fyrir landbúnaðartæki, m.a. til að auka sjálfbærni.

13.      Kostnaður við flutning allra aðfanga og afurða sem tengjast matvælaframleiðslukeðjunni verði að fullu jafnaður án þess að hann bitni á greininni og þar með verðlagningu framleiðslunnar.

14.      Gerð verði áætlun um aukinn stuðning við innlenda kornrækt, kornþurrkun og nýtingu korns til fóðurframleiðslu og manneldis.

15.      Gerð verði áætlun um uppbyggingu kornbirgða á a.m.k. tveimur stöðum á landinu svo að ætíð verði til staðar birgðir til fóðurframleiðslu í 8–12 mánuði (50.000– 80.000 tonn).

16.      Ráðist verði í rannsóknir á notkun innlendra náttúrulegra hráefna, svo sem þörunga og kalks, til áburðarframleiðslu.

17.      Öllum úrvinnslufyrirtækjum landbúnaðarvara verði gert heimilt að hagræða með samvinnu og samruna umfram þær skorður sem samkeppnisyfirvöld setja.

18.      Stutt verði við hrossarækt og hún efld til að nýta þau tækifæri sem þar liggja, m.a. til aukins útflutnings á lifandi hrossum og til nýtingar merarblóðs í lyfjaframleiðslu.

19.      Framtíð loðdýraræktar verði tryggð, t.d. með útflutningsábyrgðum, fóðurstyrkjum og sérstökum framkvæmdalánum.

20.      Gerðir verði langtímasamningar við bændur þar sem tekið verði tillit til þjóðhagslegs mikilvægis atvinnugreinarinnar, starfskjara matvælaframleiðenda og framboðs á heilnæmum afurðum.

21.      Skóg- og skjólbeltaræktun verði stóraukin svo að nýta megi tækifærin sem liggja í skógrækt.

22.      Afhendingaröryggi raforku verði tryggt svo að hætta á röskun í framleiðslu matvæla um land allt verði sem minnst.

23.      Sett verði skýr lög um upprunamerkingar matvöru í þágu neytenda þar sem fram komi m.a. uppeldisland sláturdýra og framleiðsluland matvæla, innihaldslýsingar verði skýrari, þ.m.t. um notkun lyfja við framleiðsluna og um framleiðsluferli, þ.e. hversu oft varan hafi verið fryst og afþídd við vinnslu hennar og hver sláturdagur hafi verið.

24.      Tengsl landbúnaðar við ferðamennsku og íslensk matvæli verði rannsökuð, m.a. með tilliti til verðmæta sem íslensk matvælaframleiðsla skapar ferðaþjónustunni.

Meðal markmiða tillögunnar er að stórefla innlenda matvælaframleiðslu, tryggja matvæla- og fæðuöryggi, veita neytendum umhverfisvæna, holla og næringarríka fæðu, treysta afkomu bænda, auka sjálfbærni og umhverfisvernd, varðveita þekkingu, efla rannsóknir og menntun í landbúnaði, auka skilning á mikilvægi landbúnaðarframleiðslu og vernda landgæði. Íslendingar vilja öfluga og innlenda matvælaframleiðslu sem þeir þekkja og geta treyst. Eftirspurn eftir matvælum úr nærumhverfinu hefur sjaldan verið meiri og eykst með aukinni vitneskju neytandans um kosti innlendrar framleiðslu.  

Flutningsmaður:  Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Meðflutningsmenn:  Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason, Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Þórarinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson.

Flutningsræðu Sigmundar Davíðs og umræðuna í þingsal má sjá hér