Sundabrautin enn í óvissu

Miklar væntingar hafa verið meðal landsmanna um lagningu Sundabrautar og að framkvæmdir við hana hefjist fyrr en síðar eftir að hafa verið á hinu pólitíska teikniborði í áratugi. Við hér á Vesturlandi sjáum þannig fyrir okkur að brautin geti skapað mikil tækifæri með því að tengja þéttbýlissvæðin á Akranesi og Borgarnesi og atvinnusvæðið á Grundartanga við höfuðborgarsvæðið sem þarf sárlega á landrými að halda til frekari atvinnuuppbyggingar. Beint liggur við að ætla að það verði best gert með því að byggja upp á Vesturlandi.

Fyrir skömmu boðuðu samgönguráðherra og borgarstjóri Reykjavíkur til blaðamannafundar sem átti að ramma inn framkvæmdaáætlun Sundabrautar. Þegar grannt er skoðað reyndist þar vera um sýndarmennsku að ræða. Engin ákvörðun liggur fyrir um fyrirkomulag verksins eins og það lykilatriði hvort byggð verði brú eða grafin göng. Tímasetningar eru þar að auki í algerri óvissu og engin leið að sjá fyrir sér hvenær ráðist verður í verkefnið. Svo virðist sem meirihlutinn í Reykjavík hafi komið að borðinu með allskonar fyrirvara sem virðist vera ætlað að koma í veg fyrir að ráðist verði í verkefnið. Samgönguráðherra kýs að taka þátt í leikritinu nú skömmu fyrir kosningar, væntanlega til að slá ryki í augu kjósenda. Næsta kjörtímabil virðist þannig aðeins eiga að nota í að skoða málið áfram og gera „félagshagfræðilega greiningu á þverun Kleppsvíkur“. Blekið var ekki þornað þegar ljóst var að undirritunin breytti engu um áform um Sundabraut.

Miðflokkurinn leggur mikla áherslu á að ráðist verði í lagningu Sundabrautar sem fyrst og þannig lögð áhersla á að flýta undirbúningi og framkvæmdum. Hagkvæmni verkefnisins og arðsemi þess fyrir höfuðborgarsvæðið og Vesturland ætti að réttlæta slíka flýtingu framkvæmda. Kjósendur ættu að hafa það í huga næst þegar slíkar leiksýningar eru settar upp.

 

Sigurður Páll Jónsson.

Höfundur er þingmaður Miðflokksins í NV kjördæmi.

Greinin birtist í Skessuhorni þann 21 júlí, 2021