Sveiflum haka og ræktum nýjan skóg

„Í þá tíð var Ísland viði vaxið milli fjalls og fjöru“, ritaði Ari prestur fróði Þorgilsson í upphafskafla Íslendingabókar. Talið er að við landnám hafi um þriðjungur landsins verið þakinn birkiskógum og kjarri, en nú vex birki á um 1,5 prósentum landsins og ræktaðir skógar þekja 0,5% þess. Íslendingar eru í þeirri óvenjulegu stöðu að nær allir skógar landsins eyddust og á eftir fylgdi hrikaleg jarðvegseyðing og hnignun landgæða sem er okkar alvarlegasta umhverfisvandamál.

Kjörið tækifæri

Af alþekktum orsökum er hagvöxtur hér á landi á hraðri niðurleið og atvinnuleysi eykst. Þessi öfugþróun bitnar ekki síst á dreifðum byggðum landsins, sem undanfarin ár hafa notið góðs af ört vaxandi ferðaþjónustu. Innspýting í hagkerfið er brýn og ekki sakar ef hún er um leið „græn“ þannig að hún uppfylli markmið um sjálfbærni og loftslagslausnir. Draga má úr áhrifum niðursveiflunnar, ná verulegum árangri í loftslagsmálum og byggja upp auðlind til hagsbóta fyrir land og þjóð í framtíðinni. Skógrækt er ung búgrein á Íslandi og vöxtur trjáa er til muna öflugri en menn hafa þorað að vona. Fyrir hendi er mikið ónýtt landnæði og trjárækt getur auðveldlega komið til stuðnings og viðbótar við aðra atvinnuvegi landsmanna.

Öflug kolefnisbinding

Ræktun nýrra skóga (nýskógrækt) er mikilvægasta og skilvirkasta náttúrulega aðgerðin sem heimsbyggðin hefur tiltæka til kolefnisbindingar. Víða um heim er unnið að því að meta mögulegt framlag ræktunar nýrra skóga á áður skóglausu landi til þess að takast á við loftslagsvána og uppfylla markmið í umhverfis- og atvinnumálum.

Timbur

Afurðir nytjaskóga verða að verðmætu lífrænu hráefni, timbri og smíðavið. Á líftíma sínum skapar skógur margvísleg efnisleg verðmæti, fyrst brennsluvið, girðingarstaura, jólatré, trjákurl og arinvið og síðar meir timbur og aðrar viðarafurðir sem nýta má á ótal vegu. Verð á timbri hefur lengi farið hækkandi á heimsmarkaði og ekkert sem bendir til að draga muni úr eftirspurn á næstunni. Sumar spár gera reyndar ráð fyrir því að trjáviður muni í æ ríkari mæli koma í stað steinsteypu sem byggingarefni.

Skjól og útivist

Skjóláhrif skóga bæta möguleika til ræktunar í landbúnaði. Skjólið tryggir og eykur afurðir af túnrækt, kornrækt og matjurtarækt. Skógar mynda skjól langt út fyrir það svæði sem þeir þekja og draga úr öflugustu vindhviðunum í nágrenninu. Búpeningi líður betur í skjóli en á berangri auk þess sem kostnaður við viðhald bygginga lækkar vegna skógarskjólsins. Æskilegt er að planta skógi í nágrenni við vindasama staði, ekki síst vegstæði þar sem vindhviður valda tíðum slysum eða tjóni. Skógar eru aðlaðandi til útivistar vegna skjólsins sem í þeim er og ánægjunni sem felst í að ganga um og njóta útiveru í skógi vöxnu landi. Þeir auka fjölbreytni í lífríkinu, lífverum fjölgar í skógum auk þess sem ýmsar aukaafurðir skóganna eru vinsælar meðal matgæðinga, svo sem sveppir og ber.

Atvinna

Nú með þverrandi atvinnu er unnt með aðgerðum stjórnvalda að skapa fólki arðbær störf við að undirbúa stórátak til að efla skógrækt. Strax má vinna að því að hirða um og grisja þá skóga sem fyrir eru og auka þannig gæði þeirra og hámarka árangur. Arður af skógi kemur reyndar ekki í sviphendingu, en býsna skjótt má fá tekjur af skógi vöxnu landi vegna grisjunar. Með vexti skógar aukast tekjur af honum og störfum fjölgar og trjáviður er uppspretta ótal tækifæra til nýsköpunar á ýmsum sviðum iðnaðar. Skógrækt sem tiltölulega ný atvinnugrein mun þannig stuðla að jákvæðri byggðaþróun og skapa fjölmörg afleidd störf og vera framtíðarauðlind fyrir komandi kynslóðir landsmanna.

Verðmæti jarða

Lítið hefur farið fyrir umræðu um áhrif skóga á verðmæti skógarjarða. Líklegt er að verðgildi þeirra verði í framtíðinni metið hærra, ekki síst vegna kröfu til fyrirtækja og þjóðríkja til kolefnisbindingar. Í framhaldinu má búast við að lánsog veðhæfi þeirra aukist og renni traustari stoðum undir annan búskap á viðkomandi jörð. Þannig munu skógar auka verðmæti jarða til framtíðar óháð öllum hagsveiflum sem hafa haft afgerandi áhrif á margar atvinnugreinar í gegnum tíðina. Timburafurðir má einnig geyma, ef svo má að orði komast, því eigandi getur ákveðið að fella tré síðar, ef td. verð á timbri er óhagstætt.

Kolefnisbinding

Ræktaður skógur á Íslandi bindur árlega um 10 tonn af CO2 á hvern hektara, þó misjafnt eftir staðháttum, trjátegund og aldri skógarins. Íslendingar losa árlega um 4,7 milljónir tonna af CO2-ígildum og nægði því að tæp 5% landsins, væru fyrir hendi blandskógar ýmissa tegunda (ösp, greni, lerki, fura og birki), til að binda alla okkar losun. Ræktaðir birkiskógar binda töluvert minna og þyrfti 15% landsins til sömu nota. Hins vegar myndi ræktaður asparskógur aðeins þurfa 2% landsins til að binda alla losun, því mest binding kolefnis næst með alaskaösp, allt að 23 tonnum á hektara. Það skiptir því máli hvaða tegundum er plantað, en fer að sjálfsögðu eftir því að hvaða markmiðum skal stefnt. Ef stefnt er að kolefnisbindingu er ljóst hvar á að bera niður. Nota á afkastamiklar og gjöfular tegundir sem skila mestum árangri. Ákvarðanir um í hvað fjármunum okkar sé varið til að berjast gegn útblæstri lofttegunda sem valda loftslagsröskun verða að byggjast á staðreyndum og vísindalegum rökum um gagnsemi fjárfestinga og slíkar ákvarðanir eiga að vera í höndum kjörinna fulltrúa.

Kaup á losunarheimildum

Eftir tíu ár gætum við þurft að verja verulegum fjárhæðum til kaupa á losunarheimildum ef ekki næst að standa við Parísarsamninginn. Takist að binda þá losun sparast miklar fjárhæðir sem nýta mætti í aðra arðbæra hluti. Nýskógrækt dregur að auki úr losun gróðurhúsalofttegunda frá rofnu landi um leið og hún bindur jafnframt kolefni í trjám og jarðvegi.

Látum hendur standa fram úr ermum

Gróðursetning hefur dregist verulega saman hér á landi frá efnahagshruni og í fyrra voru aðeins gróðursettar 3 milljónir trjáplantna. Nauðsynlegt er að auka þar verulega við og margfalda plöntun. Undirbúningur þess tekur nokkur ár og því mikilvægt að hefjast þegar handa. Aðgerðir stjórnvalda eru því miður í hænuskrefum að þessu leytinu á sama tíma og innan fárra ára kemur að uppgjöri á kolefnisbókhaldi landsins. Fram undan eru því tækifæri til að draga úr áhrifum niðursveiflu í efnahagslífinu, ná verulegum árangri í loftslagsmálum og byggja upp auðlind til hagsbóta fyrir land og þjóð í framtíðinni. Á erfiðum tímum þarf að horfa til framtíðar og byggja upp. Fátt eykur bjartsýni fólks eins mikið og gróðursetning trjáa. Nýtum það lag og blásum til grænnar sóknar – og ræktum skóga.

 

Höfundur:  Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi

Greinin birtist í Bændablaðinu þann 4. júní, 2020