Fyrrverandi alþingismaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins fór mikinn nýlega í skrifum sínum þegar hann varð var við vörn þingmanna Miðflokksins fyrir fullveldi Íslands í umræðu um bókun 35 sem varaformaður flokks hans leggur nú fram.
Þessi fyrrverandi alþingismaður lætur sig margt varða í opinberri umræðu, sem er gott, og er ekki lengi að stökkva til varnar fyrir flokk sinn.
Það sem fær mig til að nefna þetta hér er að nýlega mátti í skrifum alþingismannsins fyrrverandi lesa töluvert yfirlæti gagnvart Miðflokknum og þeim þingmönnum sem skipa þingflokk hans. Það fékk mig til að hugsa um umboð þingmanna.
Í framhaldinu fletti ég upp síðasta þjóðarpúlsi Gallup. Vildi sjá hvar Miðflokkurinn stæði i samanburði við aðra.
Skemmst er frá því að segja að á bak við hvern þingmann Miðflokksins er nú 3,15% fylgi, en ef við skoðum Sjálfstæðisflokkinn á sama tíma þá er 1,3% fylgi bak við hvern þingmann þeirra. 140% munur!
Skoðanakannanir eru á endanum bara skoðanakannanir og því ákvað ég að rifja upp hvernig atkvæði hefðu fallið í kosningunum haustið 2021, sem sannarlega fóru ekki vel fyrir Miðflokkinn. Það var sérstaklega svekkjandi í ljósi þess að 29. febrúar 2020, þegar heimsfaraldur Covid-19 gekk í garð og pólitískri umræðu var kippt úr sambandi, mældist fylgi flokksins hjá Gallup 14,2%.
Í kosningunum haustið 2021 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 48.708 atkvæði og Miðflokkurinn 10.879. Sjálfstæðisflokkurinn hefur því í dag 2.865 atkvæði á bak við hvern þingmann en Miðflokkurinn 5.440 atkvæði. Þar munar 90%.
Umboð okkar þingmanna er á endanum rammað inn á kjördag. Það er sjálfsögð krafa að kjósendur fái glöggar upplýsingar um hverjar megináherslur frambjóðenda og flokka eru, enda er það grundvöllur þess að kjósandi veiti tilteknum stjórnmálaflokki atkvæði sitt, tímabundið, fram að næstu kosningum. Það er mér til efs að margir af þeim rúmlega 48 þúsund sem greiddu Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt í síðustu kosningum hafi reiknað með að flokkurinn legði fram frumvarp í líkingu við það sem nú liggur fyrir í formi bókunar 35 eða leggðu til skattahækkanir.
En eftir þessa litlu naflaskoðun met ég stöðu okkar þingmanna Miðflokksins sterka og við munum halda ótrauðir áfram við að tala fyrir hóflegri ríkisútgjöldum. Lægri sköttum. Minna bákni. Fullveldi þjóðarinnar og svo mörgu öðru í þágu landsmanna.
Á sama tíma er leitt að horfa upp á að sá flokkur sem mestu hefur skipt fyrir hag lands og þjóðar síðustu hartnær hundrað ár hafi sagt skilið við grundvallarstefnu sína í mörgum málum.
En þessir tveir þingmenn Miðflokksins sem nú sitja á þingi halda uppi vörnum fyrir íslenska þjóð og það mun aldrei breytast. Það munar um Miðflokkinn.
Bergþór Ólason, alþingismaður.
Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 21. apríl, 2023.