Umsátrið um sveitarfélögin

Við búum við tvö stjórnsýslustig hér á landi, annars vegar ríkisvaldið og hins vegar sveitarfélögin. Þau síðarnefndu eru svæðisbundin stjórnvöld og stjórnað af kjörnum fulltrúum sem íbúar velja til þess. Ríkisvaldið hefur sterka stöðu og sérstaklega hér á landi þar sem ríkisstjórn er alla jafna með þingmeirihluta á bak við sig og þar með lagasetningarvaldið.

Sjálfsákvörðunarréttur

Í stjórnarskránni er sveitarfélögunum tryggður sjálfsákvörðunarréttur í sínum málefnum eftir því sem lög ákveða. Því er mikilvægt að ríkisvaldið gangi ekki gegn vilja sveitarfélaganna, eða að minnsta kosti fari varlega í slíkum efnum. Nú að undanförnu hafa sveitarfélögin ítrekað kvartað yfir ágangi ríkisvaldsins hvað málefni varðar sem skiptir þau miklu. Nýleg dæmi um þetta eru tillögur um þjóðgarð á miðhálendinu og tillögur um lögþvingaða sameiningu sveitarfélaga.

Miðhálendisþjóðgarður

Síðustu vikur hafa fulltrúar umhverfisráðuneytisins farið um landið til að kynna frumvarp um þjóðgarð sem spannar meira en þriðjung landsins. Undanfarin aldarfjórðung hefur ríkið farið geyst í rándýrum málaferlum við landeigendur svo ríkisvaldinu sé unnt að aðgreina eignarhlut sinn á svokölluðum þjóðlendum. Nú þykir ekki nóg að gert, heldur þarf að skilgreina hálendið allt sem einn þjóðgarð, þrátt fyrir að reynslan af Vatnajökulsþjóðgarði þykir misjöfn í einstökum atriðum og ærið verkefni framundan að slípa af þá galla sem fram hafa komið.

Skipulagsvaldið fært frá sveitarfélögum

Að mati margra og ekki síst fulltrúa aðliggjandi sveitarfélaga er þjóðgarðsmálið bæði vanreifað og illa undirbúið. Flest þau sveitarfélög sem land eiga að væntanlegum þjóðgarði hafa lýst sig andvíg þessum áformum. Þau sjá eftir skipulagsvaldinu og telja aukið flækjustig sé óhjákvæmilegt í höndum ríkisins á því sviði. Þá hafa sveitarfélögin deilt á aðkomu frjálsra félagasamtaka að svæðisráðum væntanlegs þjóðgarðs. Aukin miðstýring í skipulagsmálum á hálendinu telja margir ókost, stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðs mun ráða för.

Bændur þekkja sitt nágrenni

Í gegnum aldirnar og ekki síst síðustu áratugi hefur sjálfboðavinna bænda, félagasamtaka, fyrirtækja og einstaklinga verið stór þáttur í nýtingu, viðhaldi og umsjón hálendisins. Heimamenn hafa sinnt þessum störfum af trúmennsku og passað vel upp á sín svæði, enda eiga þeir þar hagsmuni til dæmis af upprekstri búfjár, veiðum og öðru slíku. Með þessum nýju hugmyndum um þjóðgarð á miðhálendinu sýnist eins og verið sé að senda þeim þau skilaboð að krafta þeirra sé ekki lengur óskað, nú taki aðrir við.

Tilraunastarfsemi

Á Íslandi er ekki mikil né löng reynsla af rekstri þjóðgarða. Aðrir þjóðgarðar á landinu svo sem Snæfellsþjóðgarður og Vatnajökulsþjóðgarður eru ólíkir fyrirhuguðum hálendisþjóðgarði að því leyti að sá síðastnefndi er meira ofan í byggð, afréttir eru nær, íbúar í nágrenni hans eru fleiri og fjöldi ferðamanna meiri. Hálendisþjóðgarðurinn snertir byggðirnar miklu meira.

Þörf á fleiri ferðamönnum?

Ein af röksemdunum fyrir stofnun garðsins er að þjóðgarður muni laða að fleiri ferðamenn. Sé talað við ferðaþjónustuaðila í Árnes- og Rangárvallasýslum hafa þeir ekki kallað eftir fleiri ferðamönnum á svæðið, nóg er þar fyrir. Þá er ótalinn kostnaður ríkisins við þessa nýjung. Stofna þarf ótal ráð, nefndir og stjórnir til að halda utan um þetta stóra verkefni. Ekki hefur fengist fjármagn til að reka Vatnajökulsþjóðgarð með sómasamlegum hætti og ljóst er að skýra þarf fyrirhugaða fjármögnun verkefnisins mun betur en gert hefur verið.

Sameiningar þvingaðar fram

Meirihluti Alþingis hefur samþykkt þingsályktunartillögu um að þvinga yfir helming sveitarfélaga landsins til sameiningar á næstu örfáu árum. Þrátt fyrir að mörg fámennari sveitarfélög hafi mótmælt kröftuglega náði málið fram að ganga. Á sjónarmið sveitarfélaganna var ekki hlustað. Miðflokkurinn lagði fram breytingartillögu um að hverfa frá lögþvinguðum sameiningum en hvetja þó til hagkvæmra sameininga eftir vilja íbúanna á hverju svæði. Við teljum að sveitarfélögin eigi að ráða sínum málefnum, eins og segir í stjórnarskrá og það getur hreinlega verið kostur að sveitarfélög séu ekki öll með þúsundir íbúa, ef það er vilji íbúanna á dreifbýlum svæðum og stærðarhagkvæmni er ekki augljós. Það skerpir sýn fólks á eigin málefni og eflir lýðræðið í landinu.

 

Höfundur:  Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi

Greinin birtist í Bændablaðinu þann 6. febrúar, 2020