Urðun eða landmótun – hver er munurinn?

Er urðun það sama og landmótun? Svarið við þessari spurningu er já. Allavega í tilfelli Sorpu bs. þótt stjórnendur þar segi annað. Undirrituð sat enn einn kynningarfundinn um málefni Sorpu að morgni mánudagsins 31. maí. Líklega var sá fundur boðaður til að rétta kúrsinn hjá kjörnum fulltrúum því dagana og vikurnar á undan voru enn fluttar fréttir af því að moltan, sem er önnur afurð gas- og jarðgerðarstöðvarinnar (GAJA), er mjög plastmenguð og stenst ekki umhverfiskröfur.

Upphaf þessa máls er að eigendur Sorpu, þ.e. sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, sömdu árið 2010 um að urðun sorps yrði hætt árið 2020 og var bygging stöðvarinnar stærsti liðurinn í því. Þau áform gengu ekki eftir og gerður var viðauki við samkomulagið þess efnis að urðun sorps yrði hætt í árslok 2023. Hér eru því á ferðinni augljósar brotalamir í rekstrinum, að ekki sé talað um milljarða króna framúrkeyrslu við byggingu verksmiðjunnar sem stendur nú í sex milljörðum. Ljóst er að rekstrarforsendur eru löngu brostnar því hvorki selst molta né metan, sem var lykilforsenda í rekstrinum.

Nú í júníbyrjun 2021 er búið að breyta um kúrs í umræðunni hjá stjórnendum Sorpu. Í staðinn fyrir að fyrir löngu átti að vera byrjað að selja moltu til uppgræðslu og trjáræktar þá er verið að „þróa moltuna“ og aðalmálið nú væri metanframleiðsla. Einmitt. Enginn markaður er fyrir metan og er því brennt að stærstum hluta á staðnum. Jafnframt segja stjórnendur Sorpu að GAJA sé í einhverju sem þau kalla tilraunafasa. Það passar ekki við fyrri orð því GAJA átti að hoppa fullsköpuð fram þegar verksmiðjan var opnuð og mala gull/moltu. Reynt að halda sannleikanum frá kjörnum fulltrúum og fjölmiðlum. Það er alvarlegur hlutur. Á tilvitnuðum fundi þráspurði ég út í plastmengun í moltunni. Það var ekki viðurkennt en staðreyndin er önnur. Ekki er búið að selja eitt einasta tonn af moltu og ekki er einu sinni hægt að gefa eitt einasta tonn því það er ekki heimilt vegna plastmengunar. Þegar ég spurði hvort það væri rétt að Sorpa væri að urða moltuna í Álfsnesi var svarið eitthvað á þessa leið: Neinei – það er ekki verið að urða moltuna – það er verið að nota hana í landmótun og landfyllingar á urðunarstað. Hvernig er hægt að bera svona orðaleppa á borð? Auðvitað er verið að urða moltuna því hún fer hvergi af svæðinu.

Eitt er að fara í misheppnaða fjárfestingu fyrir sex milljarða – hitt að viðurkenna ekki mistökin, nema staðar og axla ábyrgð. Þessum sorpblekkingarleik verður að linna.

 

Vigdís Hauksdóttir, lögfræðingur og borgarfulltrúi Miðflokksins

vigdis.hauksdottir@reykjavik.is

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 5. júní, 2021