Velferðar- og menntaviðurkenning

Á nýliðnu Landsþingi Miðflokksins var í fyrsta sinni veitt viðurkenning er ber heitið "Velferðar-og menntaviðurkenning" til minningar um Önnu Kolbrúnu Árnadóttur þingmann Miðflokksins.  

Viðurkenninguna að þessu sinni fengu hjónin Elín Arna Arnardóttir Hannam og Ólafur Haukur Ólafsson sem stofnuðu og reka Draumasetrið, https://draumasetrid.is/um-draumasetrid  heimili fyrir þá sem koma úr meðferð og eiga oft á tíðum engan samastað.  Einkunnarorð þeirra eru falleg: "Að elska lífið og elska fólk til lífs".

Markmið Draumasetursins er að bjóða dvalarstað fyrir fólk sem er að feta ný spor í lífinu eftir ofneyslu áfengis og fíkniefna. Dvalartími einstaklega er áætlaður 6 mánuðir til 2 ár. Á Draumasetrinu Héðinsgötu 10 er pláss fyrir 40 manns og á Stórhöfða 15 er pláss fyrir 25 manns. Til að eiga kost á dvöl á Draumasetrinu er nauðsynlegt að einstaklingar hafi verið án áfengis og/eða vímuefna í minnst 10 daga en flestir koma að meðferð eða vist á stofnun er lokið.

Síðan Draumasetrið var sett á laggirnar hafa ótal margir dvalið þar til skemmri eða lengri tíma. Stofnendur og starfsfólk Draumasetursins hafa fengið að fylgjast með mörgum fara út í lífið sem hafa eftir dvölina verið tilbúnir að byggja sér líf á traustum grunni.