Vinsamlegar ábendingar

Það er ekki ljóst hvenær Sjálfstæðisflokkurinn gafst endanlega upp á frjálsu markaðshagkerfi. Vísbendingarnar höfðu hrannast upp en endanleg staðfesting kom ekki fyrr en í síðustu viku þegar flokkurinn afgreiddi frumvarp um að fela 20 manna nefnd í Brussel að leggja línurnar um hvaða fjárfestingar teldust þóknanlegar hér á landi og hverjar ekki.

Eins og önnur stór frumvörp sem hafa mikil og skaðleg áhrif til langs tíma vakti þetta litla athygli eða umræðu og var keyrt hratt í gegn. Fá slíkra mála eru þó líkleg til að hafa eins mikil áhrif og þetta. Það felur í sér að hér skuli fjárfestingar metnar út frá fyrir fram skilgreindum viðmiðum sem Íslendingar hafa ekkert um að segja. Fjárfestar og frumkvöðlar verða ekki lengur best til þess fallnir að meta hvað sé vænlegast.

Flest þeirra stóru verkefna sem ráðist hefur verið í á Íslandi undanfarna áratugi hlytu líklega ekki náð fyrir augum hinna heiðgrænu sérfræðinga sem nú munu leggja línurnar. Þetta er sérstakt áhyggjuefni fyrir landsbyggðina enda snýst atvinnulífið þar (frá landbúnaði að álverum) að mestu leyti um að framleiða raunveruleg verðmæti.

Sjálfstæði

Í þeim málum sem varða sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar hafa hættumerkin líka verið mörg. Ég læt vera að rekja Icesave, orkupakkann og annað sem Sjálfstæðisflokkurinn á þingi hefur talið þægilegast að láta hafa sinn gang.

Þó verð ég að benda á að reglugerðir Evrópusambandsins sem miða að auknu miðstýringarvaldi streyma nú óhindrað í gegnum þingið, oft bornar fram af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins og samþykktar af þingmönnum sem hafa ekki hugmynd um hvaða áhrif þær muni hafa. Það kemur í ljós síðar þegar fyrirtæki og almenningur finna áhrif hins illskiljanlega og dýra reglugerðarvalds á eigin skinni.

Næst á lista er hin alræmda bókun 35 sem segir að til framtíðar skuli regluverk sem samið er af skriffinnum í Brussel og berst hingað á færibandinu teljast æðra en lög sem samin eru af fulltrúum íslenskra kjósenda.

Ríkisfjármál

Varla þarf að hafa mörg orð um óheyrilega útgjaldaaukningu ríkisins undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Ítrekað hefur komið fram að núverandi ríkisstjórn hefur slegið öll met í eyðslu almannafjár. Mestu útgjöld sögunnar, hraðasta aukningin (í krónum talið og hlutfallslega) og mestu útgjaldaáformin til framtíðar.

Ein ríkisstjórn afrekaði á 5 árum að auka útgjöld ríkissjóðs um hátt í 70% í krónum talið og um þriðjung á föstu verðlagi. Þetta á ekki að vera hægt. Beðið var um skilning vegna ófyrirséðra covid-útgjalda á meðan stjórnvöld lokuðu fyrirtækjum og verðmætasköpun í landinu að miklu leyti. Sá skilningur var veittur enda fylgdi sögunni að þegar efnahagslegum áhrifum faraldursins lyki yrði strax ráðist í aðhaldsaðgerðir og niðurgreiðslu skulda. Sú varð ekki raunin. Hin miklu útgjöld vegna „neyðarástands á heimsvísu“ mynduðu hér nýtt gólf í ríkisútgjöldum sem strax var hafist handa við að byggja ofan á.

Verst er þó líklega svartsýni ríkisstjórnarinnar á eigin getu til að ná tökum á ástandinu. Í fjármálaáætlunum sínum til næstu ára hefur ríkisstjórnin aldrei gert ráð fyrir að hægt sé að ná tökum á ríkisfjármálum fyrr en einhvern tímann í tíð næstu ríkisstjórnar. Svartsýnin vex jafnt og þétt. Spá stjórnarinnar um útgjöld ársins 2025 vex t.d. um u.þ.b. 100 milljarða með hverri áætluninni sem birtist. Þetta eru ekki gæfuleg skilaboð frá ríkisstjórn á verðbólgu- og hávaxtatímum.

Báknið

Báknið hefur aldrei verið stærra. Það stækkar með hverjum mánuðinum og hverju frumvarpi þessarar ríkisstjórnar. Opinberir starfsmenn eru nú orðnir um þriðjungur starfandi fólks á Íslandi.

Þótt flest opinber störf séu mikilvæg má ekki gleyma því að hinir þurfa að greiða skattana sem standa undir launum (og þar með skattgreiðslum) okkar opinberra starfsmanna. En einnig almannatryggingum og öðru því sem þarf til að samfélagið gangi.

Einu viðbrögðin sem ríkisstjórnin hefur sýnt í þessu efni eru áform um „opið vinnurými“. Þ.e. áætlun um að troða fleira fólki á færri fermetra. E.t.v. er það til þess ætlað að mynda rými fyrir fleiri opinbera starfsmenn. Þekkt er þumalputtareglan um að fjöldi opinberra starfsmanna aukist til að fylla það rými sem er til ráðstöfunar. Þetta var þó kynnt sem helsta sparnaðarráð ríkisstjórnarinnar í nýrri fjármálaáætlun til að takast á við verðbólgu. Ráðstafanirnar eiga víst að spara 2 milljarða en að öðru leyti felast viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hækkandi verðlagi í því að hækka skatta.

Skattahækkanir

Skattar á Íslandi eru þeir næsthæstu í þróuðum ríkjum (OECD). Þessi ríkisstjórn hækkar skatta og gjöld á flestum sviðum þótt þeim sé stundum pakkað inn í grænar umbúðir og almenningi sagt að hann hafi gott af að greiða meira fyrir syndir sínar. Neyslustýring er enda orðin fastur liður í lagasetningu ríkisstjórnarinnar. Hér er þó ekki nægt rými til að tíunda skattahækkanirnar því ég þarf að koma mér að meginefni greinarinnar.

Frelsi einstaklingsins og réttarríkið

Eitt var nefnilega ónefnt. Ef einhver kjarni var í stefnu Sjálfstæðisflokksins að frátalinni trú á frjálst markaðshagkerfi, sjálfstæði landsins og lýðræði, hófleg ríkisútgjöld, lægri skatta og minna bákn, var það trúin á frelsi einstaklingsins og grundvallarreglur réttarríkisins. 

Nú stendur til að fórna þessu síðasta vígi með afgerandi hætti. Ég hef áður skrifað grein um áform forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar um að setja samfélagið allt á innrætingarnámskeið um hvernig fólk eigi að hugsa og tjá sig. Ég læt vera að rekja það allt aftur en skemmst er frá því að segja að þetta felur í sér langstærsta inngrip sem stjórnvöld hér á landi hafa ráðist í til að stýra hugarfari og tjáningu landsmanna.

Allir frá leikskólabörnum að tíræðu fólki á hjúkrunarheimilum verða rannsakaðir og fá svo kennslu í því hvernig beri að hugsa og tjá sig. Sérstök námskeið verða m.a. fyrir kennara, lögreglu og dómara (til að útskýra fyrir þeim hvernig eigi að dæma).

Eins og alltaf þegar ráðist er gegn grundvallarreglum réttarríkisins er þetta klætt í búning ógnar. Sagt vera gert til að verja þá sem hallar á. Í þessu tilviki er tylliástæðan sú að fram eigi að fara barátta gegn „hatursorðræðu“. Fyrirbæri sem ríkisstjórninni tókst hvorki að skilgreina í frumvarpinu né í umræðu um það. Þó höfum við séð ótal dæmi um hvernig stjórnvöld hafa í gegnum tíðina endurskilgreint einmitt þetta hugtak um leið og þau eru komin með lögin og tækin til að stjórna í krafti þess.

Skilgreiningarnar koma eftir að lögin eru samþykkt og þær verða ekki leiddar af grandvörum vörðum réttarríkisins. Engu að síður hefur Sjálfstæðisflokkurinn nú tekið að sér að keyra þetta mál í gegnum þingið fyrir forsætisráðherrann sinn. Mál sem snýst fyrst og fremst um að aktívistar sem eru Vg þóknanlegir fái vald, um fyrirsjáanlega framtíð, til að ala landsmenn upp í sinni hugmyndafræði og útiloka eða refsa þeim sem ekki hlýða.

Talsverð gagnrýni barst á frumvarpið þegar það var kynnt í svo kallaðri „samráðsgátt stjórnvalda“. Þingnefndin sem heldur utan um framgang þess virðist þó lítið ætla að gera með þá gagnrýni og einbeitir sér að þeim sem eru tilbúnir til að dæma málið út frá umbúðunum fremur en innihaldinu.

Síðasta vígið fellur

Þetta er ástæða þess að ég skrifa þessa grein. Mig hefur lengi langað að sjá ríkisstjórnarflokkana líta til þess besta í hugmyndafræði sinni. Það virðist allt gleymt. Þrátt fyrir að vera keppinautur þeirra reyni ég þó áfram, því núverandi ástand er að valda samfélaginu óbætanlegu tjóni.

Í fjórtán ár hef ég reynt að minna sjálfstæðismenn á að fylgja því góða og mikilvæga í hugmyndafræði sinni. Það var ekki hlutverk mitt og hentaði mér ekki pólitískt en mér finnst mikilvægt að sem flestir sameinist um að verja prinsippin sem hafa skilað okkur árangri um aldir.

Ef flokkurinn ætlar að halda áfram að vanrækja grunnstefnu sína, ef hann ætlar að meta öll pólitísk mál eftir því hversu vel umbúðirnar falla að tísku samtímans, jafnvel að því marki að fallast á að keyra í gegn frumvarp um að nýja vinstrið fái vald til að leggja línurnar um þróun samfélagsins og að endurmennta þjóðina í rétthugsun ef sú er raunin vil ég alla vega geta sagt: „ég reyndi að vara þá við.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. maí, 2023.